Content


Þjálfarinn


Þorvaldur Örlygsson er Frömurum að góðu kunnur, en hann lék með Fram sumarið 1991, er hann lék 14 leiki og gerði 3 mörk. Þá er hann bróðir Ormarrs Örlygssonar, er lék með Fram við góðan orðstír 1985-1988.

Þorvaldur Örlygsson er fæddur árið 1966 og ólst upp á Akureyri. Hann lék með KA árin 1983-89. Þar ber hæst árið 1989, er hann var valinn besti leikmaður Efstu Deildar og varð Íslandsmeistari með KA. Þorvaldur fór þaðan í atvinnumennsku á Englandi, þar sem hann lék flest ár til 1999, þegar hann kom heim og gerðist spilandi þjálfari með KA. Þorvaldur lék með Nottingham Forest í Efstu Deild 1989-1993, Stoke í Næstefstu Deild 1993-95 og Oldham í Næstefstu og 2. Deild 1995-1999. Þorvaldur lék 41 A landsleik og gerði í þeim 7 mörk, auk þess að leika 4 leiki með U21 árs landsliðinu.

Þjálfaraferill Þorvaldar hófst með KA árið 2000. KA-menn léku í Efstu Deild undir stjórn Þorvaldar 2002-2004, en hann kom þeim upp úr 1. Deild árið 2001, er KA varð í 2. sæti 1. Deildar á eftir grönnum sínum í Þór. KA varð í 4. sæti árið 2002 og vann sér sæti í Inter-toto Evrópukeppninni, auk þess sem liðið lék til úrslita í Bikarnum árið 2001 en beið þar lægri hlut fyrir Fylki. KA féll í 1. Deild haustið 2004 en Þorvaldur var þó áfram með liðið framan af sumri 2005 en hætti af persónulegum ástæðum áður en tímabilinu lauk.

Haustið 2005 tók Þorvaldur við 2. Deildarliði Fjarðarbyggðar og undir hans stjórn vann Fjarðabyggð 2 Deild 2006. Fjarðabyggð var í toppbaráttu 1. Deildar framan af sumrinu 2007 og varð svo í 4. sæti, sem er þeirra besti árangur.

Fram byrjaði vel undir stjórn Þorvaldar. Fram varð í 2. sæti í Reykjavíkurmótinu um vorið og varð í 2. sæti í Deildarbikarnum sömuleiðis, sem er besti árangur félagsins til þessa í þeirri keppni. Þorvaldur fékk til sín leikmenn eins og Halldór Hermann Jónsson frá Fjarðabyggð og Almarr Ormarsson frá KA.

Fram byrjaði vel í Landsbankadeildinni og var um miðja deild framan af sumri 2008. Liðið vann fimm leiki en tapaði sex fyrri part móts.Í síðari umferðinni fór svo allt af stað.  Fram vann þá átta leiki, tapaði tveimur en gerði eitt jafntefli.  Síðustu sex umferðirnar, þegar Fram vann fimm af sex leikjum sínum, líða mönnum seint úr minni.  Fram vann fyrst Fjölni og Grindavík, tapaði fyrir Blikum í Kópavogi, en vann svo glæsta sigra gegn FH, Val og í Keflavík.  Þessi árangur skilaði Fram í 3. sætið og í Evrópusæti í fyrsta sinn síðan 1991.

Þorvaldur skrifaði undir nýjan samning við Fram í árslok 2008, til þriggja ára.   Ljóst var að keppnistímabilið 2009 yrði Fram nokkur áskorun.  Liðið missti Reyni Leósson til Vals en bætti úr því með því að fá Kristján Hauksson sömu leið til baka.  

Fram byrjaði ekki vel á Íslandsmótinu og var neðarlega fram eftir fyrri umferð.  Liðið hóf þáttöku í Evrópudeild UEFA og þá fóru hjólin að snúast.  Fram sló út TNS frá Wales og mætti því Sigma frá Tékklandi í 2. umferð.  Fram náði 1-1 jafntefli í Tékklandi en náði ekki að fylgja því eftir heima og tapaði 0-2.  Fyrstu Evrópuleikir Fram síðan 1992 voru til sóma og á svipuðum tíma varð viðsnúningur á gengi liðsins heima fyrir. Fram tók KR 3-0 í Laugardalnum 22. júní en tapaði fyrir FH nokkrum dögum síðar, 0-2.  Það varð síðasti tapleikur Fram þar til í Árbænum 27. júlí, en á meðan flaug Fram upp töfluna og komst einnig í undanúrslit Bikarsins.  Ágúst mánuður reyndist Fram svo fanta vel, 13 stig af 18 mögulegum komust í hús og KR-ingar voru lagðir í undanúrslitum Bikarsins.  Þessi sprettur kom of seint til að ógna þremur efstu liðunum en 4. sætið var tryggt með sigrum á Fjölni og  Grindavík í september og engu skipti þótt síðasti leikurinn gegn Þrótti tapaðist 0-1.  Fram mætti svo Breiðabliki í bikarúrslitunum og tapaði í bráðabana 6-7 eftir mjög jafnan og tvísýnan leik.

Þorvaldur hófst svo handa á leikmannamarkaðinum í október þegar hann fékk Jón Gunnar Eysteinsson frá Keflavík.  Jón Gunnar hafði áður leikið undir stjórn Þorvaldar hjá KA og Fjarðabyggð, og er þriðji leikmaður Fram til að koma úr þeirri átt.  Hinir tveir, Almarr Ormarsson og Halldór Hermann Jónsson höfðu þegar staðið sig geysivel með Fram.

Fram fékk 40 stig 2008 en 34 stig 2009.  Á móti kom að Fram vann einn bikarleik og tapaði einum 2008 en vann fjóra og tapaði einum 2009.  Þá unnust tveir Evrópuleikir 2009, ásamt einu jafntefli og einu tapi.

Árangur Fram var örlítið lakari 2010 en 2009. Fram fékk 32 stig 2010, og komst í undanúrslit Bikarkeppninnar. Til samanburðar, þá fékk Fram 34 stig 2009 og komst í úrslit. Liðið 2010 var þó mun yngra en áður og t.d. var enginn leikmaður Fram orðinn þrítugur í lok mótsins. Liðið missti reynsluboltana Ingvar Ólason, Auðun Helgason og Paul McShane. Í staðinn komu Jón Gunnar Eysteinsson og Tómas Leifsson, sem báðir urðu fastamenn í byrjunarliði.

Þorvaldur framlengdi samning sinn við Fram um haustið. Hann hafði þá þjálfað Fram í þrjú heil tímabil. Aðeins Guðmundur Jónsson og Ásgeir Elíasson hafa þjálfað Fram samfleytt lengur en Þorvaldur.« Til baka
 • Landsbanki
 • Errea
 • Sjóva
 • Sjóvá
 • Errea
 • Sportis
 • Bootcamp
 • N1
 • Coke
 • Bílaleiga Akureyrar
 • Errea
 • Nóatún

Leitarv�l